Birt af: steinarthor | maí 28, 2009

Inntökuprófið í íþróttafræðina

Þá er búið að senda út póstinn með inntökuprófinu í íþróttafræðina í HR og því var ekki seinna vænna en að byrja kíkja aðeins á þessar greinar og æfa sig. Ég ákvað að taka sundið aðeins fyrir í dag og fékk mér afþví tilefni sundgleraugu. Öruggast er að gera þetta bara eins og þeir sem vinna 9 ólympíugull eins og ekkert væri og því var ekkert annað í boði en gleraugu eins og Michael Phelps notar.

Ég lagði hinsvegar ekki í hettuna nú eða hákarlaskinnið svona til að byrja með. Þegar ég kom ofan í laugina ákvað ég að gera smá æfingar í skriðsundinu og horfði á 2-3 kennslumyndbönd á netinu áður en ég lagði af stað svona til þess að hafa einhverja hugmynd um hvernig menn fara að þessu. Þetta er hinsvegar held ég það erfiðasta sem ég hef gert. Þetta reynir ekki eingöngu líkamlega á mann heldur er öndunartæknin algjörlega vonlaus ef maður vill ekki drekka risastóran sopa af sundlaugarvatni í hvert sinn sem maður ætlar sér að anda.

Ég hinsvegar harkaði af mér og tók 200 metra í skriðsundinu og drakk eflaust svipað magn af vatni með því. Það var því ekkert annað í boði en að snúa mér að eina sundinu sem ég get höndlað svona þokkalega eða bringusundinu. Upphaflega lagði ég upp með að taka 20 ferðir eða 1000 metra en svo þegar þeir voru búnir þá var ég tilbúinn í meira svo ég tók 2000 metra í viðbót og endaði á 3000 metrunum. Því verður ekki neitað að hendurnar og fæturnir voru orðnir vel sósaðir síðustu 300 metrana af sundinu en þetta hafðist þó allt.

Það er því búið að sinna sundinu ágætlega núna og synti ég það sem ætlast er til að ég syndi í þessu inntökuprófi 30x því þar á eingöngu að taka 100 metra.

Næst er að koma sér út og hlaupa 1600 metra þó ég sé nú orðinn þokkalegur í hlaupunum og orðinn vanur því að hlaupa allt frá kílómeter upp í þá nokkra á æfingum í BootCamp. Hef hinsvegar aldrei tekið nákvæmlega 1600 metra og því sniðugt að finna gott tempó til þess að geta nú gert þetta ágætlega án þess að klúðra þessu með of hröðu starta eða eiga enþá of mikið inni þegar ég er að klára.

Þetta fær allt að fljóta hingað inn ef ég næ að sinna þessu ágætlega.

Birt af: steinarthor | maí 21, 2009

Obama er legendary

Birt af: steinarthor | maí 19, 2009

Eurovision

Þá er Euróvision helgin afstaðin og miðað við hvað á undan hefur gengið á fróni þá var yfir engu að kvarta þessa helgi. Veðrið var náttúrulega eins og það hefði verið sérpantað frá Suður Ameríku og árangurinn í Eurovision er eitthvað sem allir geta unað sáttir við. Það er augljóst mál að baráttan sem Geir hefur staðið í þetta árið og það síðasta (að mig minnir) að Eurovision þjóni einhverjum samfélagslegum tilgangi og sé hverrar krónu virði skilaði sér í dag. Enda ánægðri með að fjármagn sé sett í afþreyingarefni á borð við Eurovision í stað tuðsins, sem svo eftirminnilega var talað um í síðustu færslu, sem Egill Helgason stendur fyrir – alla sunnudaga.

Það sem mér þykir þó eiginlega merkilegast við þessa keppni er hversu ótrúlega mikið fólk um alla evrópu var sammála um að Fairytale með Alexander Rybak átti skilið að vinna þessa keppni. Það virtist vera að nánast allar þjóðir keppninar hafi gefið Noregi stig og flestar þeirra gáfu þeim fullt hús og völdu hann besta lag kvöldsins. Það er því óhætt að fullyrða að ef maður vill vera öruggur í evrópsku samkvæmi um að spila eitthvað sem ætti að höfða til allra væri Fairytale lagið sem maður mundi setja á fóninn.

Þó augljóst hafi verið eftir 3 stigagjafir að Noregur væri að fara stinga af þá var spenna um annað sætið allt fram á síðustu þjóð til að gefa okkur stig og síðustu stig þjóðarinnar sem var einmitt Noregur. Spennan í Blikanesinu var svo rafmögnum að hægt hefði verið að keyra öll kerin í álverinu í Straumsvík á henni einni saman.

Að lokum ætla ég að bjóða upp á Fairytale með Alexander Rybak fyrir æsta Eurovision aðdáendur. HÉRNA

Birt af: steinarthor | maí 16, 2009

Tuðið

Tveir gamlir og góðir félagar mínir úr Verzlunarskólanum fannst vanta allt tuð hjá mér hingað á bloggið. Ekkert búinn að vera væla yfir stjórnmálum eða öðru eins og mér einum var nú lagið. Það var nefnilega þannig að þegar ég var í Verzló fannst mér svolítið gott að tuða – svona eins og tuðið væri að skila einhverju. Mér fannst mikilvægt að hafa skoðun á öllu og láta allt mig varða.

Þetta er hinsvegar orðið þannig núna frá ,,hruninu“ að búið er að naga mig inn að beini með einhverju pólitísku væli og sú hugarfarsbreyting sem átt hefur sér stað hjá mér hefur gert það að verkum að ég sé mig ekki jafn knúin að skipta mér að öllu eins og áður var. Heil kynslóð moggabloggara hefur orðið til sem lætur sig allar fréttir síðurnar varða eins og um þeirra mesta hitamál sé að ræða. Þó ekki sé nema bara verið að fjalla um trjárækt á tálknafirði þá sjá sig fleiri manns sig knúna til þess að sjá sig um það.

Um daginn rakst ég á bíl frá fyrirtækinu Svansprent sem var á ferðinni og fannst mottóið þeirra alveg frábært. ,,Við hlustum  – verkin tala“ sem virðist oft vera svolítið vandamálið. Menn eru ótrúlega duglegir að tala um hlutina ætla að búa til áætlanir fyrir allan anskotann í stað þess að boða aðgerðir. Menn geta búið sér til alskonar áætlanir til þess að ætla koma sér í gott form, búið til hlaupahringi, fengið lyftingarprógram og lesið tímarit um hreyfingu og heilsu. En ef menn fara aldrei í ræktina og taka hressilega á því þá er enginn sigur unninn, bumban mun ekki hverfa og engir vöðvar verða byggðir upp.

Menn sitja svo heima hjá sér í volæði og væla yfir kreppunni. Það eru vissulega margir sem eiga um sárt að binda og í slæmri skuldastöðu en eitt er alveg á hreinu og það er að væla yfir málinu bjargar engum. Menn verða bara að skapa sín eigin tækifæri og vinna sig út úr vandamálinu. Hvort sem það er atvinnuleysi, vömbin eða hvað eina. Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að reyna bara sleppa tuðinu og láta verkin tala. Það er enginn sigur unnin með því að blogga allan daginn um hvað þessi og hinir séu að kúka á sig.

Flott hjá þeim sem nenna því en þegar uppi er staðið er ekki verið að leysa nein vandamál og menn eru engu nær. Hversu margar fréttir eiga t.d. að fjalla um ESB eða skrifa margar greinar í Morgunblaðið nú eða blogga um málið. Engin sigur hefur verið unninn og menn enþá á byrjunarreit þrátt fyrir ummæli þúsundir manna um málið.  Menn berja í potta og brjóta rúður en boða engar aðgerðir. Eða boða aðgerðir sem fyrir öllum mönnum sem kunna að forgangsraða er algjörlega neðst á listanum svosem að afnema bindisskyldu og fjalla um sykurskatta. Menn deila um dyramottuna á meðan húsið brennur. Svo ég ætla að leyfa fýlupúkunum að eiga árið 2009 í friði fyrir mér. Á meðan ætla ég að vinna í mínum málum og skapa mín tækifæri. Sé nú ekki talað um að ef ég held áfram að lyfta eins og maður og vera duglegur að mæta í BootCampið þá verður Störe að Lille.

Þar hafið þið það gömlu refir – var þetta ásættanlegt tuð?

Birt af: steinarthor | maí 4, 2009

10 km hlaup með meiru

Fyrir akkúrat ári síðan var ég að taka stúdentsprófin mín í Verzló. Árangurinn var nú ekki kannski sá glæsilegasti sem Verzló hefur alið af sér en ef prófað hefði verið í þáttöku í félagslífinu hefði ég eflaust útskrifast með aðeins hærri meðaleinkunn. Það var hinsvegar eitt fag sem ég var slappari í en öll önnur fög svona eftirá að hyggja. Það fag er auðvita íþróttir enda meiri vælukjóa og aumingja ekki hægt að finna þó farið væri allaleiðina yfir í Hamrahlíðina. Svo mikill vælukjói var ég að ég gerði mér upp læknisvottorð í íþróttum til þess að þurfa ekki að taka lokaprófin í 6.bekk og fékk þá einkunn byggða eingöngu á geðstuðli Sigurbergs íþróttakennara. Hans geðstuðull virðist hinsvegar vera hið mesta jafnaðargeð enda fékk ég heila 6 í lokaeinkunn sem er langt um betra en ég átti raunverulega skilið.

Þetta væri svosem ekkert frásögufærandi enda kók og snickers morgunverðir og almenn óheilbrigði eitthvað sem öll skólasystkini mín, vinir og velunnarar eru með á hreinu. Það merkilega hinsvegar er að á föstudaginn síðastliðinn í raun ári seinna eftir að ég hefði átt að vera fluttur á spítala með Vælubílnum hljóp ég mitt fyrsta hlaup sem hægt er að kalla. 1.maí var nefnilega haldin tveggja tíma úti/inni æfing hjá BootCamp enda ómögulegt að við verkalýðurinn værum ekki þræluð rækilega út á þessum annars ágæta frídegi.

Eftir að hafa verið í tannaðgerð og í tvær vikur á Spáni í golfi tók ég 10 km hlaup frá BootCamp á Suðurlandsbraut niður í Elliðadal og gegnum Fossvoginn endilangann og meðfram Kringlumýrabrautinni niður á Suðurlandsbraut aftur. Það sem gerir þetta þó aðeins meira challengin er að áður en ég lagði á stað tók ég 50 upphífingar, 50 súperfroska (froskur með armbeygju) og 50 hangandi fótalyftur. Þetta verkefni tók mig klukkutíma sem á víst að teljast nokkuð góður tími.  Þó ég segi nú sjálfur frá er ég merkilega stoltur af þessu afreki enda aldrei hlaupið jafn langt á ævi minni og viti menn næg orka var eftir hlaupið. Það má hinsvegar ekki halda að æfingin hafi verið búin þarna því eftir þetta tók ég 20 ferðir í stiganum með 16 kg sandpoka ásamt 100 kassauppstigum með þennan ágæta sandpoka líka.

Til þess að við færum nú alveg örugglega ekki heim óþreytt þá tókum við dash af höndum og brjóstkassa í lokinn eða  tvöhundruð byssur og tvöhundruð bekkpressur með sandpoka.

Þetta kveikti áhuga minn enn meira á því að taka hálfan Ironman í sumar eða jafnvel heilan næsta sumar. En það verður aðeins að velta á því hversu auðvelt verður að æfa á fullu í BootCamp á sama tíma og ég er að kenna siglingar allan daginn í Siglunesi. Það eru aðeins meiri átök andlega og líkamlega að bera báta og kenna siglingar en menn gruna.

Læt hér fylgja með í lokin upphitunina fyrir keppnina 2008

Birt af: steinarthor | apríl 30, 2009

Ungfrú fegurð 2009

Mér var boðið á sýningu hjá henni Kristínu Ástu frænku minni síðastliðinn þriðjudag. Hún lék í verki sem bar heitið ,,Ungfrú fegurð 2009″ hvorki meira né minna. Þetta var í alla staði hin skemmtilegasta sýning og átti ekki langt í land að sækja í nemendamótin undanfarin ár sé litið til aldurs þáttakenda en þeir eru í kringum 9 ára. Hún Kristín söng lag fyrir fullan litla sal í Borgarleikhúsinu sem verður að teljast glæsilegur árangur þar sem salurinn tekur 170 manns í sæti.

Þessi sýning er hluti af lokahófi Sönglistar sem er söng og leiklistarnámskeið fyrir krakka. Mér þykir þetta alveg hreint ótrúlega sniðugt og fátt betra eða sniðugra til að efla sjálfstraustið en að æfa söng og leik og geta sýnt fyrir jafn mikinn fjölda af fólki. Maður man vel úr Verzló hvað BEKEVÍ hjálpaði manni mikið í framsögu og allur sá fjöldi fyrirlestra sem maður hélt fyrir bekkinn sinn. Að tala fyrir framan hóp af fólki í dag er lítið tiltökumál hvort sem það er í formi ræðu eða kynningar.

Snemma beygist því krókurinn hjá þessum krökkum og hægt að búast við að þegar komið verður á menntaskólaárin ef þessu er vel haldið við að frammistaða í ræðukeppnum eða þegar halda á fyrirlestra fyrir bekkinn að árangurinn verði umtalsvert betri en hjá manni sjálfum. Enda minnist maður þess að hafa endað ófáum sinnum sem versti ræðumaður dagsins þegar ég byrjaði að keppa í BEKEVÍ í 4.bekk.

Frábær árangur hjá henni Kristínu og augljóst að hún á framtíðina fyrir sér í söng- og leiklistinni.

Birt af: steinarthor | apríl 28, 2009

Sumarið er komið

Það hefur sýnt sig undanfarna daga að sumar sé komið. Dagurinn í dag verður þó að flokkast sem undantekningin sem sannar regluna.

Hún Freyja Haraldsdóttir vinnuveitandinn hennar Fanneyjar á líka svona fallegan labrador tík sem heitir Nala. Í vinnunni fer Fanney stundum út að viðra hundinn og í fyrrakvöld fékk Fanney mig með sér í fjöruferð á Arnarnesið. Ég tók nokkrar myndir í sumarblíðunni af Nölu. Veðrið var hreint út sagt ótrúlega gott og frábært að rölta um Arnarnesið í blíðunni og ekki skemmir fyrir að hafa svona hressan leikfélaga.

Nala sýpur saltann sjó

Rosalega hlýðin

Hún var nú ekki alveg að þora að sækja þessa spýtu

Þessi bolti virtist spennandi en hún varð að játa sig sigraða

Það væri nú óskandi að ég gæti líka hrist mig bara eftir sturtu

Þetta er ekki amarlegt!

Birt af: steinarthor | apríl 26, 2009

Keilir

Ég og Fanney skelltum okkur á Keili á Vallarnesheiði eins og ég held nú að svæðið heiti í gær, laugardag, og áttum vægast sagt mjög góðan dag.

Fanney er náttúrulega orðin snarofvirk þegar kemur að ræktinni og vakti mig því klukkan 11 og var þá sjálf búin að vera á tveggja tíma útiæfingu úti á Gróttu með Boot Camp. Ég var hinsvegar löglega afsakaður þar sem ég er saumaður saman í munninum og lít út eins og Lalli Johns meðal fólks og verkjar mikið í munninn við að hreyfa mig að þá var ég heima. Kvöldið áður hafði ég hinsvegar tekið mig til og lesið 160 blaðsíður í bókinni ,,Þúsund bjartar sólir“ og get ég viðurkennt fyrir ykkur hér og nú að ég hef aldrei lesið jafn mikið í skáldsögu nema á mánuði eða tilneyddur í prófatörn.

Hvað sem því líður þá skelltum við okkur í sund í sundlaug Kópavogs þar sem Fanney ætlaði að reyna saxa aðeins á tan forskotið sem ég fékk á Spáni í golfinu en það gekk erfiðlega þar sem sólin var hvorki mjög sterk né það hafi sést sérstaklega mikið til hennar ofan í heitapottinum. Eftir sundferðina héldum við á Keilissvæðið. Þar ákváðum við að byrja á því að skoða ÍAK einkaþjálfaranámið sem Fanney stefnir á næsta haust og hún var þar í öllum greiningum sem hægt er að setja fólk í og komst fyrir vikið að því að allt er að henni sem getur verið að henni – held ég!

Síðan skoðuðum við íbúðirnar þarna sem kosta minna en góðu hófi gegnir en ástæðan fyrir því reyndist síðar nokkuð einföld þar sem íbúðirnar voru mjög svo subbulegar og eðlilegra að fá borgað með því að búa þarna heldur en að borga fyrir það – eigi maður völ á einhverju öðru það er að segja. Síðan fengum við að prófa vespur sem voru í boði fyrirtækis sem ætlar að leigja vespur í Reykjavík í sumar og þar komumst við að því að það verður sko heldur betur tekinn einn activity laugardagur þar sem leigðar verða vespur og gerður sér glaður dagur.

Þarna á Keili er einnig boðið upp á einkaflugmannsnám, nám í flugumferðarstjórn og atvinnuflugmannsnám en þarna var hægt að fara í útsýnisflug fyrir 5000 kr.- og útssýnisflug á Þyrlu fyrir 4000 kr.- en við létum ekki verða að því að svo stöddu en tók ég hinsvegar þá ákvörðun að ég ætla mér að læra fljúga flugvél eða þyrlu þegar ég hef tök á því.

Annars góður dagur var svo lokið með því að kjósa í bænum áður en borðaður var kvöldverður í boði frú Kristínar hér í Hvassaleitinu.

Birt af: steinarthor | mars 30, 2009

Mánuður til stefnu

Jæja það styttist óðum í BootCamp Elite prófið sem haldið verður í maí og núna er eingöngu, fyrir klóka stærðfræðisnillinga, eingöngu mánuður til stefnu. Þrekpróf apríl mánaðar var tekið í dag og árangurinn líkt og honum sæmir svona miðað við hversu stutt er í prófið og allt þarf að vera komið á hreint fyrir þann tíma.

Armbeygjur – 82 stk þarf að ná 80 stk

Sit-ups – 71 stk þarf að ná 80 stk (hefði nú geta 80 ef lífið hefði legið við)

Froskar – 62 stk þarf að ná 55 stk

Núna þarf hinsvegar að einbeita sér að hlaupinu og upphífingunum því ég get ekki nema svona 1 til 2 upphífingar af 8 þar sem óheimilt er að tjakka sig upp og þær þurfa að vera alveg dauðar. Að sama skapi þarf ég að hlaupa 2.75 km á 12 mínútum sem er eitthvað sem ég þarf að einbeita mér að að kappi næstkomandi vikur. Ef allt gengur eftir ætti ég svo að geta náð elítu prófinu í maí líkt og markmiðið var.

Birt af: steinarthor | mars 28, 2009

Laugardagur

Þessi ágæti laugardagsmorgun byrjaði ekki á þynnku líkt og margir laugardagsmorgnar. Nei heldur betur ekki því klukkan 8 í morgun var ég vakinn  þreyttari en björn sem liggur í dvala. En að þessu sinni var góð ástæða til að drulla sér upp úr rúminu því Fanney var búinn að elda hafragraut líkt og góðri kærustu sæmir. Eftir að hafa hámað í mig hafragraut, maltbrauð með kjötáleggi, vatn og mjólk henti ég mér í fötin til þess að fara á fyrstu ,,alvöru“ útiæfingu Boot Camp.

Það verður reyndar að segjast að snjókoma, rok og -4.5°C var ekki veðrið sem ég gerði ráð fyrir þegar ég loksins hafði fyrir því að líta út um gluggann. Í bílnum á leiðinni niðureftir þambaði ég svo Soccerade sem átti að setja punktinn yfir I’ið á þessum veglega morgunmat. Þegar þangað var komið var hinsvegar eins og ég hafði ekki borðað morgunmat heldur hefði steypustöð BM Vallá steypt góðan grunn tónlistarhússins í magann á mér. Byrjun æfingarinnar var því erfið, bæði veðurlega og matarlega en það lifnaði þó yfir báðu tvennu þegar líða tók á æfinguna.

Óþarfi að fara hér kannski í nána útlistun á æfingunni fyrir utan að ég fékk að bera bláókunnuga stelpu á bakinu upp og niður brekkur og klifra yfir brýr – en hvað er það svosem milli vina?

Hreinar línur að hér eftir mun maður rífa sig upp (lesis fanney rífur mig upp) í morgunsárið enda fátt meira hressandi en þetta.

Það var þó hinsvegar sérstakt gleði efni að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var í Laugardalshöllinni en fyrir framan hana fór hinsvegar hluti æfingarinnar fram. Þar sáust góðir menn eins og Bjarni Ben og Árni Johnsen og svo aðrir síður góðir menn sem mættir voru í jakkafötunum rétt yfir 10 með ístruna sína og poka frá Aktu-Taktu með löðrandi börger og fræs í morgunmat. Menn sem vel hefðu átt að láta refsa sér aðeins í morgunsárið áður en þeir fóru á landsfundinn.

Older Posts »

Flokkar